Um RóRó

RóRó er vaxandi nýsköpunarfyrirtæki, stofnað af Eyrúnu Eggertsdóttur í lok árs 2011. Markmið fyrirtækisins er að þróa vörur sem bæta svefn og líðan ungra barna og foreldra þeirra.

Fyrsta vara fyrirtækisins er dúkka sem gefið var nafnið Lulla doll eða Lúlla dúkkan. Hugmynd að samsetningu og virkni Lúllu dúkkunnar er einstök og er henni ætlað að mæta vandamálum sem snerta stóran hluta barna og foreldra. Lúlla er mjúk tuskudúkka sem spilar upptöku af andardrætti og hjartslætti móður í slökun. Með þessu á hún að líkja eftir nærveru og er ætluð börnum frá fæðingu.

Hugmyndin að virkni og áhrifum dúkkunnar er byggð á fjöldamörgum rannsóknum og ráðgjöf frá sérfræðingum. Ennfremur hefur sýnt sig að hún hentar fyrirburum, langveikum börnum og börnum með sérþarfir og taugaþroskaraskanir, sem og öllum þeim sem upplifa skort á nærveru. Mjög takmarkað framboð er á vörum með áþekka virkni og Lúlla en mikil þörf er til staðar fyrir þennan hóp.

Lúlla er elskuð af börnum og foreldrum um heim allan, en um 200.000 dúkkur hafa selst til rúmlega 80 landa frá því hún kom á markað árið 2015. Fjölmargir foreldrar hafa birt myndir og sagt frá jákvæðum áhrifum Lúllu á líf þeirra, einkum betri svefn og ró sem Lúlla skapar. Árið 2019 kom á markað ný útgáfa af Lúllu og eru þær nú orðnar þrjár: Coral, Sky og Lilac.

Árið eftir stækkaði RóRó vörulínuna aftur með Lúllu uglunni, sem spilar í 24 klst, og þremur tegundum af kósýgöllum fyrir Lúllurnar.

x